Nám í gegnum leik. Mikilvægt er að styðja við frjálsa leikinn og gefa honum nægilegt rými samhliða því að huga að efniviði og þátttöku starfsmanna í leik barnanna. Mikilvægt er að leyfa börnunum að spreyta sig og nota útsjónarsemina án þess að aðstoða þau strax, en jafnframt að vera tilbúin að styðja þau og styrkja þegar á þarf að halda.
Könnunarleikurinn fer fram á Bakka, Álfhóli og Dvergasteini. Markmiðið með könnunarleiknum er að börnin nái að leika sér með verðlaust efni. Hvert barn fær poka með ýmis konar verðlausu efni í. Innihaldið í pokunum er eins hjá öllum. 4-5 börn eru í hverjum hópi, starfsmaðurinn á að sitja til hliðar og skipta sér sem minnst af börnunum. Ákveðnar reglur eru um tiltekt.