Uppeldi til ábyrgðar

Uppeldi til ábyrgðar er uppeldis og samskiptastefna sem miðar að því að efla innri hvata barnanna til að verða góðir og gefandi einstaklingar sem lifa í sátt við annað fólk og umhverfi sitt.

Viðurkennt er að allir geta gert mistök og tækifæri gefið til að leiðrétta þau eftir bestu getu.

Uppbyggingarstefnan er ekki einungis leiðarvísir að gefandi samskiptum barnanna heldur starfsmannanna líka.

Unnið er með eftirtalda þætti:

  • Grunnþarfir
  • Óskaveröldin
  • Mitt hlutverk og þitt hlutverk
  • Að leiðrétta hegðun og veita sárabætur

Notaðar eru opnar spurningar til að leiða börnin áfram að uppbyggilegum verkefnum og lausnum á vandamálum.

 

Hvernig vinnum við með þarfir barnanna?

Til þess að þroskast til sjálfsuppbyggingar þarf fólk að skilja samhengi hlutanna og læra að setja sig í spor annarra. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að allar manneskjur hafa fimm grunnþarfir sem eru öruggt
umhverfi, að tilheyra, hafa áhrif, njóta frelsis og gleði. Séu þessar þarfir ekki uppfylltar kemur það fram í líðan fólks og hegðun.

Þegar unnið er með grunnþarfirnar með börnunum er svokallaður þarfahringur notaður. Í þarfahringnum er hver þörf túlkuð með tákni til að styðja við umræðuna. Ef þarfir barna eru ekki uppfylltar eins og t.d. ef barn
ræðst á annað barn er öryggi þess síðarnefnda ógnað. Þetta er tilefni til samræðu um að allir hafi þörf fyrir öryggi og nú hafi það ógnað öryggi hins barnsins. Þá tökum við fram þarfahringinn og ræðum um þarfirnar við börnin, lesum sögur og fjöllum um þarfir og líðan sögupersónanna samhliða lestrinum. Við spyrjum t.d.
spurninga eins og ,,Hvernig leið Palla þegar hann var einn í heiminum?" Þó hann hefði ótakmarkað frelsi og fengi að ráða því sem hann vildi, var eitthvað sem vantaði, þörf hans fyrir ást og umhyggju var ekki fullnægt. Hann tilheyrði ekki neinum hópi, hann var aleinn.

Til að kynna mikilvægi hverrar þarfar, höfum við sem hjálpartæki fyrirfram skrifuð leikrit sem ná vel til barnanna. Kynntur er deildarbangsi eða brúða sem heimsækir börnin og segir þeim frá grunnþörfunum. Samhliða umfjöllun um þarfirnar ræðum við líka um tilfinningar. Til þess notum við tilfinningaspjöld sem börnin geta bent á til að sýna hvernig þeim líður.

Í hópastarfi er unnið enn dýpra með þarfahringinn. Fyrsta verkefnið á haustin fjallar um öryggið sem táknað er með húsi. Þá vinna börnin alls konar verkefni sem tengjast þeirri grunnþörf að lifa í öruggu umhverfi og þau eru spurð ýmissa spurninga sem tengjast verkefninu. Á svipaðan hátt er fjallað um hinar fjórar þarfirnar eina af annarri til þess að börnin geri sér grein fyrir mikilvægi þeirra í lífi okkar allra. Farið er mishratt yfir eftir aldri barnanna og getu. Mikil áhersla er lögð á vinnu með hjartað sem táknar þörfina fyrir að tilheyra og að njóta umhyggju.

 

Óskaveröldin

Til þess að ná árangri í lífinu er mikilvægt að vita að hverju við stefnum. Við þurfum því að setja okkur markmið og velja þau gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi. Þetta þurfa börn líka að gera. Þau þurfa að hugsa um hvernig einstaklingar þau vilja vera og hvernig þau vilja að deildin þeirra sé. Þegar börn eru spurð hvernig börn þau vilji vera er svarið nær undantekningarlaust að þau vilja vera góð og dugleg í einhverri mynd. Þau vilja t.d. vera börn sem hjálpa og eru góðir vinir. Þegar búið er að spyrja þau þessarar spurningar verða þessi góðu markmið þeirra meðvitaðri en áður. Þá getum við t.d. spurt: Ertu búin að gleyma að þú ætlar að vera barn sem hjálpar öðrum? Við getum líka spurt: Hvernig get ég hjálpað þér?

Á deildinni er mikilvægt að allir sameinist um ákveðnar reglur og að umræða fari fram um hvernig samskipti við viljum hafa á deildinni. Umræðan um óskaveröldina höfðar til betri manns hvers og eins. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að skapa gott og gefandi umhverfi þar sem öllum líður vel. Til að styðja við markmiðssetningu er umræða um lífsgildi og dyggðir nauðsynleg. Þetta styður líka við deildarsáttmálann sem segir hvaða reglur og gildi við viljum fara eftir á deildinni. Stuðst er við ritröðina Betri skapgerð í þessari vinnu, en þar er að finna stuttar dæmisögur og æfingar sem eru til þess fallnar að kenna börnunum meiningu hugtaksins og æfa sig.

 

Mitt hlutverk og þitthlutverk

Í samskiptum er mikilvægt að hver og einn þekki hlutverk sitt og breyti samkvæmt því. Sum hlutverk eiga jafnt við alla en önnur eru misjöfn eftir stöðu okkar og aldri. Opna þarf augu barnanna fyrir þessum mismun og kenna þeim að þekkja sín hlutverk. Teknar eru myndir af börnunum sem sýna hver hlutverk þeirra eru. Við byrjum vetrarstarfið á þessum myndatökum og gætum þess vel að myndir séu teknar af öllum börnunum. Dæmi um myndefni er að hjálpa hvert öðru, að skiptast á, að sitja, að borða sjálf, að klæða sig, að ganga frá fötunum, að taka saman, að leika sér, að þvo hendurnar og þurrka sér, svo eitthvað sé nefnt. Þessar myndir eru prentaðar út, plastaðar og hengdar upp á vegg í hæð barnanna. Þannig geta börnin alltaf horft á sig sjálf og vini sína á deildinni í hlutverkum sínum. Þetta hefur reynst mjög öflug leið til að kenna þeim að þekkja hlutverk sín og minna þau á hve dugleg þau eru að hjálpa sér sjálf og aðstoða aðra.

 

Agi í anda uppeldis til ábyrgðar

Eins og nafn uppeldisstefnunnar uppeldi til ábyrgðar felur í sér, er markmiðið að kenna börnunum góða hegðun sem er sprottin af þeirra innri hvöt til að vera ábyrgir einstaklingar sem taka tillit til annarra. Forðast er að stýra börnum með umbun og refsingu, því afleiðingar þess geta orðið, blind hlýðni án gagnrýnnar hugsunar, mótþrói við fyrirmælum, lágmarksframmistaða nema stöðug umbun fylgi, skortur á frumkvæði og hætta er á því að börnin geri ekki það sem ætlast er til af þeim þegar enginn sér til. Mikilvægt er að börnin hagi sér vel af því þau vilja það sjálf vegna þess að þau vilja vera góðir og gefandi einstaklingar. Þá kemur hvatinn innanfrá og þau fá metnað til að gera vel. Þegar þau eru orðin meðvituð um hvernig einstaklingar þau vilja vera eru þau meðvitaðri um hvort hegðun þeirra er í samræmi við markmiðið. Reynist svo vera, eru þau stolt af eigin frammistöðu og sjálfsmyndin eflist. Umbunin er í því fólgin og kemur innanfrá.

Til að auka meðvitund barnanna um hegðun sína er mikilvægt að samræma tungutak allra sem vinna með þeim og að þau séu spurð í stað þess að gefa fyrirmæli. Við spurningu vaknar hugsun sem leiðir af sér samræðu, en við einhliða mötun hins fullorðna er hætta á að börnin loki eyrunum og sýni mótþróa.

Leitast er við að segja já frekar en nei, sé þess nokkur kostur. Þannig verða starfsmenn að vega og meta hvort raunveruleg ástæða sé til að neita börnunum um það sem þau vilja gera, þannig að þau fái ekki þá tilfinningu að ,,allt sé bannað". Oft er hægt að segja við börnin ,,Já, þegar ..." ef það er ekki hægt á þeirri stund sem óskin er borin fram. Þegar neita þarf börnunum verður að fylgja því eftir, en gott er að geta vísað í fyrri umræðu.
,,Hvert er þitt hlutverk?" ,,Hvað gerist ef þú ... ?" ,, Hvernig líður hinum börnunum ef þú gerir þetta?"

Ekki er reiknað með að börnin fari í hlé vegna erfiðrar hegðunar nema þau ógni öryggi annarra og að ekki sé hægt að ná til þeirra með þeim ráðum sem við höfum, sem eru opnar spurningar sem höfða til innri manns,
tilboð um hjálp út úr erfiðum aðstæðum, umræða um þarfir, hlutverk, deildarreglur og lífsgildi.

 

Að leiðrétta hegðun og veita sárabætur

Mikilvægt er að hafa í huga að við erum öll mannleg og gerum mistök. Við þurfum því að hafa tækifæri til að leiðrétta mistök okkar eftir því sem hægt er. Ef okkur verður á að gera eitthvað á hluta annars manns getum við
bætt fyrir það með því að gera eitthvað gott fyrir hann og biðjast fyrirgefningar. Vert er þó að athuga að fyrirgefningarbeiðni án innistæðu virkar ekki sem sárabót.