Velkomin í leikskólann

Leikskólinn Bakkaborg var opnaður formlega 1. desember 1972 að Blöndubakka 2 í neðra Breiðholti. Upphaflega voru fjórar deildir við leikskólann en haustið 1995 bættist fimmta deildin við þegar skóladagheimilinu Bakka var lokað. Deildarskipting er nú sem hér segir:

Bakki, ungbarnadeild, 1-2 ára
Álfhóll, miðdeild, 2-4 ára
Dvergasteinn, miðdeild, 2-4 ára
Skessuból, eldri deild, 4-6 ára
Trölladyngja, eldri deild, 4-6 ára
 
Leikskólinn er opinn frá 7:30 til 17:00.
 
Hugmyndafræði og áherslur:
 
Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga 
Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga (Restitution – Self Discipline) er eins og nafnið bendir til, aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Fundin er leið til að láta skólastarf ganga betur með þá vitneskju að leiðarljósi að hver og einn geti aðeins stjórnað sjálfum sér og ekki öðrum. Þetta veldur grundvallarbreytingu á hugsun margra skólamanna um aðferðir við stjórnun og meðferð agamála – breyting verður á kenniviðmiðum (paradigm-shift) skólasamfélagsins varðandi samskipti og aga. Við förum að sjá þessa hluti í nýju ljósi.
 
Í stað þess að reiða sig á hina gömlu hefð að nota refsingar og sektarkennd til stjórnunar og ná fram óttablandinni virðingu gagnvart sér eldri, fá nemendur tækifæri og þjálfun í að líta inn á við, skoða eigið gildismat og láta það stýra framkomu sinni og hegðun allri. Áherslan verður á virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu.Við trúum því að öll hegðun hafi tilgang og við séum ávallt að gera okkar besta.  
 
En til að tryggja öryggi eru skýr mörk skilgreind um óásættanlega hegðun. Viðurlög eru ákveðin með víðtæku samþykki kennara og foreldra. Þá þarf enginn að vera í vafa um viðbrögð skólans þegar skýr þolmörk eru rofin. Barninu er gefið tækifæri til að fara yfir málið og læra af mistökunum, vinna sér traust hópsins sem hann braut gegn og efla með því sjálfstraust sitt í samskiptum. Þannig verða mistök af þessu tagi tækifæri til að læra að nota betri leiðir í framtíðinni við að uppfylla þarfir sínar - leiðir sem hvorki meiða né særa. 
 
 
 
Gleði, vinátta, virðing“ eru einkunnarorð leikskólans sem eiga að skína í gegn um allt starfið og vera okkur leiðarljós auk þess sem við nálgumst þau markmið sem sett eru í lögum og Aðalnámskrá með „jafnvægismiðuðu uppeldi“. Í jafnvægismiðuðu uppeldi felst að leitast er við að hafa jafnvægi í uppeldisstarfinu; jafnvægi milli andstæðra póla, t.d. sjálfshjálpar og aðstoðar, reglufestu og frelsis, örvunar og aga. Þá er markmiðið einnig að bjóða börnunum fjölbreytt viðfangsefni sem stuðla að alhliða þroska þeirra. Með því móti leggjum við grunn að víðsýnum og fjölhæfum einstaklingum sem geta síðar á skólagöngu sinni valið í hverju þeir vilja sérhæfa sig. Bent skal á að hægt er að afla sér nánari upplýsinga í námskrá leikskólans.
 
Hér á heimasíðu leikskólans má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra og viljum við sérstaklega benda í síðuna Upplýsingar þar sem farið er yfir helstu atriði sem allir ættu að hafa í huga. Þar er til dæmis hægt að fræðast um fatakassana, umsjónarmenn, foreldrafélag og sumarfrí svo eitthvað sé nefnt.
 
Hér eru svo nokkrar krækjur á gagnlegt efni tengt leikskólanum
 
Starfsáætlun Bakkaborgar
Jafnvægismiðað uppeldi
Foreldra handbók